Gefur heilbrigðisstarfsfólki fúlgur fjár

Ron Dennis á góðri stundu með McLarenliðinu í Monza.
Ron Dennis á góðri stundu með McLarenliðinu í Monza. AP

Ron Dennis, fyrrverandi eigandi og aðalstjórnandi McLarenliðsins í formúlu-1 hefur gefið eina milljón sterlingspunda, jafnvirði 180 milljóna króna, til að fæða starfsfólk sjúkrahúsa breska heilbrigðiskerfisins (NHS).

Dennis var æðsti stjórnandi McLaren frá 1981 til 2017 en í dag fer hann fyrir átakinu  SalutetheNHS.org sem hefur það að markmiði að leggja heilbrigðiskerfinu til matvæli næstu þrjá mánuðina, meðan tekist er á við mesta vandann sem hlýst af stríðinu við kórónuveiruna.

Máltíðirnar verða ókeypis fyrir starfsfólk gjörgæsludeilda, svæfingarlækna, hjúkrunarfólk og fleiri starfstéttir sjúkrahúsa meðan það er í vinnu og losnar ekki af vinnustað sínum vegna álagsins þar.

„Við þurfum öll að leggja baráttunni við veiruna lið. Þetta er allsherjarsamstarf,“ sagði Dennis er hann skýrði frá gjöf sinni.

mbl.is