Sýnir Vettel samúð

Charles Leclerc (t.v.) með verðlaun fyrir að vinna ráspólinn í …
Charles Leclerc (t.v.) með verðlaun fyrir að vinna ráspólinn í Suzuka, en þar varð Sebastian Vettel (t.h.) annar. AFP

Charles Leclerc sendi liðsfélaga sínum Sebastian Vettel samúðarkveðju á samfélagsmiðlum síðdegis, en Vettel tilynnti í morgun að hann myndi hætta hjá Ferrari í haust.

Þeir urðu liðsfélagar fyrir ári og laut Vettel í lægra haldi fyrir nýgræðingnum á keppnistíðinni 2019, sem var hans fyrsta með Ferrari en Vettels fimmta. Milli þeirra ríkti oftast mikil spenna og náði það einna hæst í næstsíðasta móti ársins, í Sao Paulo í Brasilíu þar sem þeir skullu saman og féllu báðir úr leik.

Leclerc segir að gagnkvæm virðing hafi ríkt milli þeirra öllum stundum þrátt fyrir átök á kappakstursbrautinni sjálfri.

„Það hefur verið gríðarlegur heiður fyrir mig að vera liðsfélagi þinn. Nokkur spennu þrungin augnablik í brautinni. Sum mjög góð, önnur sem fóru ekki eins vel og við væntum, en alltaf ríkti þó virðing milli okkar þó svo utanfrá menn hafi ekki talið svo vera. Ég hef aldrei lært eins mikið og með þig sem liðsfélaga. Takk fyrir allt Seb,” skrifaði Leclerc.

Charles Leclerc fer hér á undan Lewis Hamilton í franska …
Charles Leclerc fer hér á undan Lewis Hamilton í franska kappakstrinum í fyrra. AFP
Charles Leclerc.
Charles Leclerc. AFP
mbl.is