Þjóðverji á þýskum bíl hljómar vel

Sebastian Vettel.
Sebastian Vettel. AFP

Mercedes­stjór­inn Toto Wolff segir að það væri góð markaðssetning að fá ökuþórinn Sebastian Vettel til liðs við Mercedes en hann mun yfirgefa lið Ferrari við lok komandi keppnistímabils.

Vettel gekk til liðs við Ferr­ari fyr­ir keppn­istíðina 2015 eft­ir fimm ár í keppni með Red Bull, en með því vann hann heims­meist­ara­titil öku­manna fjór­um sinn­um í röð, 2010 til 2013. Honum tókst hins vegar ekki að vinna titilinn eftirsótta með Ferrari en hann lauk keppni í fimmta sæti á síðasta tímabili eftir að hafa verið í baráttu um heimsmeistaratitilinn ár tvö þar á undan.

Ferrari réð Spánverjann Carlos Sainz til að leysa Vettel af hólmi en Spánverjinn verður sjötti ökumaðurinn til að keppa fyrir Ferrari frá árinu 2010. Ekki er vitað hvað tekur við hjá Þjóðverjanum Vettel en hann hefur þó ekki marga kosti. Yfirmenn Red Bull, hans gamla liðs, hafa nú þegar útilokað að hann snúi aftur þangað.

„Sebastian er frábær ökumaður, frábær persónuleiki og hann bætir hvaða formúlu-1-lið sem er,“ sagði Wolff, liðsstjóri Mercedes, í viðtali við Essentially Sports. „Auðvitað er góð markaðssetning að hafa þýskan bílstjóra í þýskum bíl en við einbeitum okkur að eigin liði fyrst, þetta er ekki aðalatriðið.“

Valtteri Bottas á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum hjá Merecedes en það gæti reynst erfitt að gefa heimsmeistaranum Lewis Hamilton liðsfélaga sem vill ólmur sigra hann. Þá hefur Vettel verið orðaður við lið Renault.

mbl.is