Fyrirliðinn samþykkir 50 prósenta launalækkun

Steven Naismith er fyrirliði Hearts í Skotlandi.
Steven Naismith er fyrirliði Hearts í Skotlandi. Ljósmynd/Hearts

Steven Naismith fyrirliði skoska knattspyrnufélagsins Hearts hefur samþykkt að taka á sig 50 prósenta launalækkun vegna fjárhagsvandræða sem félagið gæti lent í vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Ann Budge, eigandi félagsins, hefur beðið alla leikmenn félagsins að taka 50 prósenta launalækkun og er Naismith sá fyrsti sem samþykkir beiðnina. Áður hafði knattspyrnustjórinn Daniel Stendel samþykkt að fá ekki útborgað í einhvern tíma. 

„Ég hef hugsað mikið um beiðni eigandans og ég hef ákveðið að hjálpa til. Þessi staða er afar óþægileg fyrir marga, en ég og fjölskylda mín erum sammála að þetta sé það rétta í stöðunni. Ég vona að þetta hjálpi félaginu til frambúðar,“ var haft eftir Naismith á heimasíðu félagsins.

mbl.is