Barcelona tilbúið að selja stórstjörnu

Antoine Griezmann gæti farið frá Barcelona í sumar.
Antoine Griezmann gæti farið frá Barcelona í sumar. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona er reiðubúið að selja Antoine Griezmann frá félaginu, tæpu ári eftir að hann kom frá Atlético Madrid fyrir 120 milljónir evra. 

Forráðamenn Barcelona áttu von á meiru frá Griezmann, sem hefur skorað 14 mörk í 37 leikjum á tímabilinu. Sport á Spáni greinir frá því að félagið sé reiðubúið að selja hann á undir 100 milljónir evra. 

Segir miðilinn Barcelona hafa mikinn áhuga á að fá Neymar aftur til félagsins frá PSG og því þurfi að selja Griezmann. Þá hefur spænska félagið einnig áhuga á Lautaro Martínez hjá Inter Mílan. 

Samkvæmt Daily Mail á Englandi hafa PSG, Manchester United og Chelsea öll áhuga á að fá Griezmann í sínar raðir.

mbl.is