Leikmaður Inter vildi frekar fara til Juventus

Lukaku í leik gegn Juventus.
Lukaku í leik gegn Juventus. AFP

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku vildi frekar fara til Juventus en Inter Mílanó þegar hann yfirgaf Manchester United síðasta sumar. Þar sem Paulo Dybala vildi hins vegar ekki fara til Manchester United, endaði Lukaku hjá Inter. Þetta segir umboðsmaðurinn hans við Sky. 

United reyndi við Dybala síðasta ágúst en að lokum tókst ekki að semja. Ætlaði Juventus að fá Lukaku í staðinn fyrir Dybala, en þar sem það gekk ekki upp, voru forráðamenn Inter fljótir að bregðast við. 

„Lukaku er í Inter Mílanó-treyjunni og ekki í Juventus-treyju þar sem Juventus tókst ekki að selja Dybala til Manchester United,“ sagði Federico Pastorello, umboðsmaður Lukaku við Sky. 

„Juventus gerði allt sem það gat að fá hann og það hefði verið skemmtilegt að sjá hann hjá Juventus, en það gekk ekki upp,“ bætti umboðsmaðurinn við. 

mbl.is