UEFA frestar öllum úrslitaleikjunum

Aleksander Ceferin forseti fer fyrir vinnuhópi UEFA um nýtt skipulag …
Aleksander Ceferin forseti fer fyrir vinnuhópi UEFA um nýtt skipulag á leikjunum sem eftir eru í Evrópumótum félagsliða. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, tilkynnti fyrir stundu að öllum úrslitaleikjum Evrópumóta félagsliða sem fram áttu að fara í maímánuði hefði verið frestað.

Um er að ræða þrjá leiki, úrslitaleik Meistaradeildar kvenna, úrslitaleik Evrópudeildar UEFA og úrslitaleik Meistaradeildar karla. Enn er eftir að ljúka 16-liða úrslitum í karlamótunum og átta liða úrslitin í Meistaradeild kvenna eru ekki hafin.

Úrslitaleikur Meistaradeildar kvenna átti að fara fram 24. maí í Vín í Austurríki.

Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar átti að fara fram 27. maí í Gdansk í Póllandi.

Úrslitaleikur Meistaradeildar karla átti að fara fram 30. maí í Istanbúl í Tyrklandi.

Í  tilkynningu UEFA segir að engin ákvörðun hafi verið tekin með nýja leikdaga en vinnuhópur hafi verið settur á stofn í síðustu viku, undir stjórn Aleksanders Ceferins, forseta UEFA, og hann hafi þegar tekið til við að finna lausnir. Frekari tilkynningar verði gefnar út þegar ástæða verði til.

mbl.is