Á förum frá Real Madrid

Gareth Bale á enga framtíð hjá Real Madrid samkvæmt fjölmiðlum …
Gareth Bale á enga framtíð hjá Real Madrid samkvæmt fjölmiðlum á Spáni. AFP

Gareth Bale, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid er á förum frá félaginu í sumar en þetta fullyrða spænskir fjölmiðlar í dag.

Bale var sterklega orðaður við brottför frá Real Madrid og var nálægt því að ganga til liðs við Jiangsu Suning í kínversku úrvalsdeildinni síðasta sumar en Real Madrid stoppaði skiptin á síðustu stundu.

Bale hefði farið frítt til Jiangsu Suning en Real Madrid var ekki tilbúið að missa hann þannig og hætti því við félagaskiptin. Bale er orðinn þrítugur að aldri en hann er samningsbundinn Real Madrid til sumarsins 2022. Hann er í dag metinn á 40 milljónir evra en hann þénar í kringum 600.000 pund á viku hjá Real Madrid.

Sóknarmaðurinn hefur meðal annars verið orðaður við endurkomu til Tottenham en enska félagið hefur ekki efni á því að borga honum sömu laun og Real Madrid. Bale hefur aðeins byrjað ellefu leiki í spænsku 1. deildinni á leiktíðinni þar sem hann hefur skorað tvö mörk en hann hefur meðal annars verið orðaður við bandarísku MLS-deildina að undanförnu.

mbl.is