Farnir að skipuleggja undirbúningstímabilið

Landsliðskonan Anna Rakel Pétursdóttir leikur með Uppsala sem er eitt …
Landsliðskonan Anna Rakel Pétursdóttir leikur með Uppsala sem er eitt liðanna í umræddu móti. AFP

Svíar eru staðráðnir í því að koma fótboltanum í gang hjá sér frá og með júníbyrjun og eru þegar farnir að skipuleggja undirbúningsmót sem á að hefjast eftir aðeins 25 daga.

Sex félög í Stokkhólmi og nágrenni hafa skipulagt mót kvennaliða sinna. Þar á meðal eru tvö lið sem íslenskar knattspyrnukonur leika með, Djurgården, lið Guðrúnar Arnardóttur, og Uppsala, lið Önnu Rakelar Pétursdóttur.

Hin liðin eru AIK, Hammarby, Brommapojkarna og Eskilstuna United. Frá þessu er greint á síðu sænsku kvennadeildarinnar og haft eftir Marcus Björling hjá Djurgården að leikið verði frá og með helginni 18.-19. apríl og leikin ein umferð um hverja helgi frameftir maímánuði.

„Leikirnir verða án áhorfenda þar sem við munum ekki taka neina ónauðsynlega áhættu," segir Jean Balawo, íþróttastjóri Djurgården, á heimasíðu félagsins. Tekið er fram að farið verði eftir öllum reglum sem gildi um öryggi vegna kórónuveirunnar.

mbl.is