Ronaldo og Mendes gefa sjúkrarúm og tækjabúnað

Cristiano Ronaldo dvelur í sóttkví á heimaslóðum sínum í borginni …
Cristiano Ronaldo dvelur í sóttkví á heimaslóðum sínum í borginni Funchal á portúgölsku eyjunni Madeira um þessar mundir. AFP

Knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo og umboðsmaðurinn Jorge Mendes hafa tekið höndum saman við að styrkja portúgölsk sjúkrahús í baráttunni við kórónuveiruna.

Þeir munu gefa tæki til tveggja deilda á Santa Maria sjúkrahúsinu í Lissabon og einnar deildar á Santo Antonio sjúkrahúsinu í Porto. Samtals er um að ræða 35 rúm fyrir gjörgæsludeildir ásamt allskyns búnaði en bæði sjúkrahúsin hafa sent frá sér tilkynningar vegna gjafanna.

„Við viljum þakka Ronaldo og Mendes fyrir þetta frumkvæði sem er mjög mikilvægt á tímum þar sem þjóðfélagið þarf á öllum stuðningi að halda," sagði í yfirlýsingu frá Paulo Barbosa, yfirmanni Santo Antonio.

Í Portúgal hefur aðeins verið tilkynnt um 2.362 smit vegna kórónuveirunnar og 29 dauðsföll, mikið færri en í nágrannalandinu Spáni, en Reuters segir að heilbrigðiskerfið í landinu sé eftir sem áður undir gríðarlegu álagi.

mbl.is