Real Madrid leggur allt í sölurnar

Kylian Mbappé er á meðal eftirsóttustu knattspyrnumanna heims.
Kylian Mbappé er á meðal eftirsóttustu knattspyrnumanna heims. AFP

Forráðamenn spænska knattspyrnuliðsins Real Madrid ætla að leggja allt í sölurnar til þess að fá Kylian Mbappé, sóknarmann PSG, til Spánar þegar félagaskiptaglugginn opnar á nýjan leik en það eru spænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Mbappé er einungis 21 árs gamall en hann er á meðal eftirsóttustu leikmanna í heiminum í dag.

Mbappé er samningsbundinn PSG til ársins 2022 en hann hefur skorað 18 mörk í tuttugu leikjum í frönsku 1. deildinni á tímabilinu. Mbappé gekk formlega til liðs við PSG frá Monaco sumarið 2018 en þá borgaði PSG 145 milljónir evra fyrir leikmanninn. Mbappé hefur hins vegar spilað með PSG frá árinu 2017 en var lánsmaður hjá félaginu á sínu fyrsta tímabili.

Þrátt fyrir ungan aldur þá á hann að baki 120 leiki fyrir PSG í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 90 mörk og lagt upp önnur 49 fyrir liðsfélaga sína. Þá á hann að baki 34 landsleiki fyrir Frakka þar sem hann hefur skorað þrettán mörk en hann varð heimsmeistari með liðinu í Rússlandi 2018.

Real Madrid vonast til þess að losna við Gareth Bale af launaskrá í sumar en hann er að þéna í kringum 600.000 pund á viku. Fari svo að Bale yfirgefi félagið þá losnar um umtalsverða fjármuni hjá liðinu og er Mbappé efstur á óskalist félagsins. Verðmiðinn á honum er hins vegar í kringum 200 milljónir evra en Liverpool er einnig sagt áhugasamt um þjónustu leikmannsins.

mbl.is