Goðsögn fallin frá - skildi eftir mikla arfleifð

Michel Hidalgo er látinn.
Michel Hidalgo er látinn. AFP

Ein af goðsögnum franskrar knattspyrnu er fallin frá en franska knattspyrnusambandið og samtök franskra knattspyrnumanna skýrðu frá því í dag að Michel Hidalgo væri allur, 87 ára að aldri.

Hidalgo hafði glímt við veikindi um árabil og lést á heimili sínu í Marseille.

Hann varð fyrsti þjálfarinn til að færa Frakklandi stóran titil í fótboltanum en Frakkar urðu Evrópumeistarar á heimavelli undir hans stjórn árið 1984, eftir að hafa komist nokkuð óvænt í undanúrslit heimsmeistarakeppninnar á Spáni tveimur árum áður. Hidalgo lét af störfum eftir sigurinn 1984 en hann hafði þá stýrt franska liðinu í átta ár.

Michel Hidalgo með Evrópubikarinn 1984 ásamt Didier Six, Manuel Amoros …
Michel Hidalgo með Evrópubikarinn 1984 ásamt Didier Six, Manuel Amoros og Jean-Francois Domergue eftir sigur á Spánverjum í úrslitaleik EM í París. AFP

„Sem þjálfari fór Michel með lið Frakklands í hæstu hæðir og gerði það með fallegum leikstíl sem gerði okkur öllum kleift að sýna okkar einstaklingshæfileika. Hann skildi eftir sig mikla arfleifð því hann byggði franskan fótbolta upp að nýju á alþjóðlegum vettvangi. Sýn hans og verk endurspeglast enn þann dag í dag í hverjum einasta leik sem landsliðið okkar spilar," sagði Michel Platini, leiðtogi Frakka undir stjórn Hidalgo, í yfirlýsingu í dag.

Sjálfur var Hidalgo góður knattspyrnumaður en hann lék með liði Reims sem tapaði 4:3 fyrir Real Madrid í fyrsta úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða árið 1956. Þá varð hann tvisvar franskur meistari og tvisvar bikarmeistari með Mónakó um og uppúr 1960. Hann lék einn landsleik fyrir Frakkland árið 1962.

Hidalgo starfaði áfram sem yfirmaður knattspyrnumála hjá franska knattspyrnusambandinu til 1986 og gegndi síðan sömu stöðu hjá Marseille næstu fimm ár á eftir. Hann dró sig í hlé árið 1991 en var um nokkurt skeið sérfræðingur um fótbolta hjá sjónvarpsstöðinni TMC Monte Carlo.

mbl.is