Með öskubakka á maganum að drekka bjór

Brasilíska goðsögnin Ronaldo.
Brasilíska goðsögnin Ronaldo.

Peter Crouch, sem á sínum tíma gerði garðinn frægan m.a. með Tottenham, Liverpool og Stoke í ensku úrvalsdeildinni, rifjar upp skemmtilegt augnablik á Daily Mail í dag.

Crouch hitti brasilíska Ronaldo á fríi á Ibiza, en það augnablik fór ekki alveg eins og Englendingurinn hafði óskað sér. Ronaldo er einn besti framherji allra tíma og varð hann m.a tvisvar heimsmeistari og lék með Barcelona, Real Madríd, AC Mílan og Inter Mílanó. 

Crouch skoraði 22 mörk í 42 landsleikjum fyrir enska landsliðið og lék í tæpa tvo áratugi í ensku úrvalsdeildinni. Þrátt fyrir það vissi Ronaldo ekkert hver Crouch væri. 

„Ég hitti hann einu sinni. Ég var í fríi á Ibiza og ég sá hann á ströndinni. Hann var að drekka bjór og með öskubakka á maganum. Í hvert skipti sem hann kláraði bjórinn sinn kom ofurfyrirsætan sem hann var með með nýjan. Ég bað um mynd og hann hafði ekki hugmynd um hver ég var,“ rifjaði Crouch upp. 

mbl.is