Býst við að Messi fari til Ítalíu

Lionel Messi hefur leikið með Barcelona allan ferilinn.
Lionel Messi hefur leikið með Barcelona allan ferilinn. AFP

Massimo Moratti, fyrrverandi forseti ítalska knattspyrnufélagsins Inter Mílanó, á von á því að félagið gangi frá kaupum á Lionel Messi í sumar.

Messi hefur leikið með Barcelona allan ferilinn, en síðustu mánuðir hafa verið erfiðir fyrir Argentínumanninn hjá félaginu. 

Messi hefur rifist við stjórnarmenn félagsins á tímabilinu og fór rifrildi hans við Eric Abidal, fyrrverandi samherja sinn og núverandi stjórnarmann hjá Barcelona, í fjölmiða. Messi á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum hjá Barcelona.

„Hann á lítið eftir af samningnum og það er alls ekki útilokað að hann skipti yfir til Inter. Ég á von á því að Lautaro Martínez fari til Barcelona og Messi kæmi þá til Inter í staðinn,“ sagði Moratti við Radio Rai. 

mbl.is