Talaði aldrei við uppáhaldssamherjann

Berbatov í leik með Manchester United.
Berbatov í leik með Manchester United. AFP

Búlgarski framherjinn Dimitar Berbatov átti góðan feril sem knattspyrnumaður og lék hann m.a. með Manchester United og Tottenham. Þar lék hann með þónokkrum stórstjörnum, en þrátt fyrir það er hans uppáhaldssamherji ekki úr þeirra röðum. 

„Robbie Keane og Wayne Rooney voru góðir samherjar, en minn uppáhaldssamherji var Brasilíumaðurinn Franca. Við spiluðum saman hjá Leverkusen. Við skoruðum báðir helling og við unnum m.a. Bayern München 4:1,“ sagði Berbatov við Goal.

„Við skoruðum báðir fullt af mörkum og lögðum upp hvor á annan. Hann talaði hvorki ensku né þýsku svo við töluðum alls ekkert saman. Við sáum hvor annan á æfingum og það var nóg fyrir okkur. Við vorum eins og Andy Cole og Dwight Yorke,“ sagði Búlgarinn.

mbl.is