Messi sakar fjölmiðil um falsfréttir

Lionel Messi er orðinn þreyttur á falsfréttum.
Lionel Messi er orðinn þreyttur á falsfréttum. AFP

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi er ósáttur við falsfréttir um framtíð sína, en hann sakaði TNT-fréttastofuna um þrjár slíkar á Twitter í dag. 

„Lygi númer eitt,“ skrifaði Messi undir mynd af frétt frá TNT þess efnis að hann vildi yfirgefa Barcelona og fara til Inter. „Lygi númer tvö,“ skrifaði hann svo undir mynd af frétt frá sama miðli þar sem fullyrt var að Messi hefði borgað tryggingargjald Ronaldinhos og leyst hann úr fangaklefa í Paragvæ.

„Sami miðill skrifaði á dögunum um að ég væri að fara til Newell's í Argentínu. Það er líka rangt. Sem betur fer trúir þessu enginn,“ skrifaði Messi sömuleiðis, en hann er greinilega orðinn pirraður á röngum fréttum um framtíð sína.

mbl.is