Knattspyrnumaður myrti fimm ára son

Cevher Toktas.
Cevher Toktas. Ljósmynd/Twitter-síða Cevher Toktas

Tyrkneski knattspyrnumaðurinn Cevher Toktas gaf sig fram við lögreglustöð í Istanbul og viðurkenndi að hafa orðið fimm ára syni sínum að bana. 

Toktas og sonur hans fóru saman á spítala 23. apríl síðastliðinn, þar sem sonurinn var með mikinn hósta og hita. Voru þeir í kjölfarið settir í einangrun á spítalanum og grunað að þeir væru með kórónuveiruna. 

Síðar þann dag kallaði Toktas á lækna og sagði son sinn eiga erfitt með andardrátt. Var strákurinn sendur á gjörgæslu, þar sem hann var úrskurðaður látinn. Var fyrst um sinn haldið að strákurinn hefði látist af völdum kórónuveirunnar og hann grafinn án þess að Toktas væri grunaður um saknæmt athæfi. 

Ellefu dögum síðar fór Toktas hins vegar á lögreglustöð og viðurkenndi að hafa kæft son sinn með kodda á meðan hann lá í spítalarúmi. Skýrslan sem Toktas gaf var opinberuð og þar útskýrði hann hvernig og hvers vegna hann framdi morðið. 

„Ég þrýsti kodda á son minn, sem lá á bakinu. Ég þrýsti koddanum í 15 mínútur án þess að lyfta honum upp. Sonur minn streittist á móti, en þegar hann hætti að hreyfa sig lyfti ég koddanum. Eftir það öskraði ég á lækna og þá grunaði ekki neitt. 

Ég elskaði aldrei yngri son minn. Ég veit ekki hvers vegna en ég elskaði hann aldrei. Ég drap hann þennan dag því mér líkaði ekki vel við hann. Ég á ekki við nein geðræn vandamál að stríða,“ segir í skýrslunni. Bíður hann nú eftir réttarhöldum á meðan lík sonarins verður krufið á nýjan leik. 

Toktas lék sem varnarmaður á ferlinum og spilaði hann síðast með Bursa Yildirimspor í fimmtu efstu deild Tyrklands. Lék hann í efstu deild frá 2008 til 2009 með Hacettepe. 

mbl.is