Kyn­lífs­dúkk­urnar gætu reynst afar dýrkeyptar

Dúkkurnar skemmtu sér konunglega á pöllunum.
Dúkkurnar skemmtu sér konunglega á pöllunum. AFP

Suðurkóreska knattspyrnufélagið FC Seoul gæti verið komið í vandræði eftir að starfsmenn félagsins komu kynlífsdúkkum fyrir á áhorfendapöllunum er liðið lék við Gwangju síðastliðinn sunnudag. Leikur liðið heimaleiki sína á HM-vellinum í Seúl, en hann var byggður fyrir HM í Suður-Kóreu og Japan 2002. 

Leikið er í efstu deild Suður-Kóreu án áhorfenda og vildu forráðamenn félagsins blása lífi í mannlausa stúkuna. Um 25 dúkkum var komið fyrir. Stjórnendur deildarinnar voru ekki sáttir við athæfið og samkvæmt The Guardian gæti félagið átt yfir sér harða refsingu. 

Í fyrsta lagi gæti félagið fengið sekt fyrir að skerða ímynd deildarinnar. Verra gæti þó fylgt þar sem fyrirtækið sem á völlinn, Seoul Facilities Corporation, þarf að samþykkja allar auglýsingar sem birtar eru á vellinum.

Vilja forráðamenn fyrirtækisins meina að um auglýsingu hafi verið að ræða og gæti félaginu því verið meinað að nota völlinn sem heimavöll, en liðið hefur leikið heimaleiki sína á vellinum síðan 2004. 

mbl.is