Norska undrabarnið eftirsótt í sumar

Erling Braut Haaland fagnar marki sínu gegn Schalke um síðustu …
Erling Braut Haaland fagnar marki sínu gegn Schalke um síðustu helgi. AFP

Erling Braut Haaland, framherji þýska knattspyrnufélagsins Borussia Dortmund, er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu þessa dagana en það er spænski miðillinn Marca sem greinir frá þessu. Samkvæmt spænska miðlinum ætla bæði Real Madrid og PSG að leggja fram tilboð í leikmanninn í sumar en Haaland er einungis 19 ára gamall.

Haaland gekk til liðs við Dortmund frá Red Bull Salzburg í janúarglugganum síðasta en þýska félagið borgaði 20 milljónir evra fyrir leikmanninn sem hefur hækkað gríðarlega í verði síðan hann kom til Þýskaland. Haaland skoraði sitt tíunda mark í níu leikjum fyrir Dortmund um síðustu helgi þegar liðið vann 4:0-sigur gegn Schalke í þýsku 1. deildinni.

Fyrir áramót skoraði hann 16 mörk í austurrísku 1. deildinni með Salzburg og þá skoraði hann 10 mörk í Meistaradeidlinni með Salzburg og Dortmund á tímabilinu. Haaland er samningsbundinn Dortmund til sumarsins 2024 en hann er í dag metinn á 70 milljónir evra. Óvíst er hversu lengi leikmaðurinn mun stoppa í Þýskalandi en öll stærstu lið Evrópu reyndu að fá hann í janúarglugganum síðasta.

mbl.is