Sá besti líka mesti vandræðagemsinn

Fabio Capello.
Fabio Capello. AFP

Ítalski knattspyrnustjórinn Fabio Capello segir að brasilíski framherjinn Ronaldo sé besti leikmaðurinn sem hann hafi nokkurn tímann unnið með. Á sama tíma var sá brasilíski mesti vandræðagemsinn. 

Ronaldo, sem er af mörgum talinn einn besti framherji sögunnar, lék með Real Madrid frá 2002 til 2007 og lék því undir stjórn Capello síðasta eina og hálfa árið hjá spænska risafélaginu. 

„Ronaldo var sá hæfileikaríkasti sem ég hef þjálfað en á sama tíma sá sem olli mestum vandræðum í búningsklefanum,“ sagði Capello við Sky á Ítalíu. „Hann hélt mikið af partíum og einu sinni kom Ruud van Nistelrooy upp að mér og sagði að búningsklefinn lyktaði eins og áfengi,“ rifjar Capello upp. 

Real gekk töluvert betur eftir að Ronaldo var seldur til AC Milan. „Við byrjuðum að vinna um leið og hann fór, en ef við tölum bara um hæfileika, var hann sá hæfileikaríkasti,“ bæti Capello við. 

mbl.is