Dapurlegra en að dansa við systur sína

Luis Enrique tók við spænska landsliðinu árið 2018 en stýrði …
Luis Enrique tók við spænska landsliðinu árið 2018 en stýrði Barcelona frá 2014 til 2017. AFP

Luis Enrique, þjálfari spænska karlalandsliðsins í knattspyrnu, er ekki hrifinn af því að leika án áhorfenda þegar keppni hefst á nýjan leik á Spáni í kjölfar hlésins vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Að spila fótbolta án áhorfenda er dapurlegra en að dansa við systur sína,“ sagði Enrique í viðtali í sjónvarpsþættinum Colagados del Aro, þar sem körfubolti er aðallega til umfjöllunar.

Þýski fótboltinn fór af stað á ný um síðustu helgi á galtómum leikvöngum og Spánverjar ætla að feta í fótspor Þjóðverja sem fyrst í júnímánuði.

„Þetta var mjög ljótt. Ég horfði á leikina í Þýskalandi og það var sorglegt. Maður heyrði kjaftæðið inni á vellinum og spennan fyrir stóru stundunum í leiknum var ekki til staðar,“ sagði Enrique en kvaðst viðurkenna að það myndi létta lund fólksins sem væri fast heima í stofu vegna útgöngubanns af völdum kórónuveirunnar að geta horft á leikina í sjónvarpinu.

„Við verðum að skilja að þetta eru viðskipti á heimsvísu sem skila af sér gríðarlegum tekjum og þótt leikirnir séu öðruvísi áhorfs þegar fólk er á vellinum geta útsendingarnar létt okkur lífið og hjálpað okkur í gegnum þrengingarnar. Hvort sem þú ert áhugamaður um fótbolta eða körfubolta er alltaf gaman að horfa á leik,“ sagði Enrique.

mbl.is