Hollendingurinn kominn til Bandaríkjanna

Jaap Stam er orðinn knattspyrnustjóri FC Cincinnati.
Jaap Stam er orðinn knattspyrnustjóri FC Cincinnati. AFP

Hollendingurinn Jaap Stam hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri FC Cincinnati í Bandaríkjunum. Gerir hann tveggja ára samning við félagið. 

Stam gerði garðinn frægan sem leikmaður og lék m.a. með Manchester United og AC Milan. Hefur hann síðan þá stýrt Reading á Englandi og FC Zwolle og Feyenoord í heimalandinu. Sagði hann upp hjá Feyenoord í október á síðasta ári. 

Stam, sem er 47 ára, er spenntur fyrir nýja starfinu. „Það er draumur að fá tækifæri til að starfa í Bandaríkjunum fyrir félag eins og FC Cincinnati. Mér hefur alltaf líkað vel við Bandaríkin og ég hlakka til að byggja félagið upp,“ sagði Stam við heimasíðu félagsins. 

Voru tvær umferðir búnar af deildarkeppninni vestanhafs þegar henni var frestað vegna kórónuveirunnar og tapaði Cincinnati fyrstu tveimur leikjum sínum. Varð liðið í 24. og neðsta sæti deildarinnar á síðustu leiktíð. 

mbl.is