Lækka verðmiðann um helming

Samuel Umtiti er til sölu í sumar.
Samuel Umtiti er til sölu í sumar. AFP

Samuel Umtiti, varnarmaður spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, er til sölu í sumar en hann hefur einingis byrjað níu leiki í spænsku 1. deildinni á tímabilinu. Umtiti er 26 ára gamall en hann gekk til liðs við Barcelona frá Lyon, sumarið 2016, og hefur tvívegis orðið Spánarmeistari með liðinu og tvívegis bikarmeistari.

Umtiti var lykilmaður í hjarta varnarinnar hjá Frakklandi þegar liðið varð heimsmeistari í Rússlandi eftir 4:2-sigur gegn Króatíu í úrslitaleik í Moskvu. Barcelona er í miklum fjárhagserfiðleikum vegna kórónuveirufaraldursins en allir leikmenn félagsins í öllum íþróttagreinum þurftu að taka á sig 70% launalækkun í síðasta mánuði.

Spænski miðillinn Sport greinir frá því að Barcelona hafa lækkað verðmiðann á leikmanninum úr 50 milljónum evra niður í 25 milljónir evra. Arsenal og Manchester United eru bæði sögð afar áhugasöm um leikmanninn en fjöldi leikmanna spænska stórliðsins er til sölu í sumar vegna efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins.

mbl.is