Heimsmeistarinn aftur að glíma við meiðsli

Lucas Hernandez fagnar með Benjamin Pavard og Robert Lewandowski.
Lucas Hernandez fagnar með Benjamin Pavard og Robert Lewandowski. AFP

Franski varnarmaðurinn Lucas Hernandez verður frá í einhvern tíma vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik Bayern München og Düsseldorf í þýsku 1. deildinni í fótbolta í gær. 

Var Hernandez í byrjunarliði Bayern en fór af velli í hálfleik vegna meiðslanna sem eru í læri. Hernandez hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann kom til Bayern frá Atlético Madríd á síðasta ári vegna þrálátra meiðsla. 

Var Frakkinn aðeins að byrja sinn annan leik á árinu og nú er ljóst að hann verður frá í einhvern tíma enn á ný. Bayern greiddi Atlético Madríd 80 milljónir evra fyrir Hernandez, sem varð heimsmeistari með Frakklandi í Rússlandi sumarið 2018. 

Bayern er með sjö stiga forskot á Dortmund á toppi þýsku deildarinnar þegar aðeins fimm umferðir eru eftir. 

mbl.is