Ætlum okkur þá alla

KA fagna bikarmeistaratitlinum.
KA fagna bikarmeistaratitlinum. mbl.is/Hari

KA frá Akureyri er bikarmeistari karla í blaki eftir 3:1-sigur á HK í úrslitum í gær. Kópavogsliðið hreppti sem sagt silfrið hjá báðum kynjum.

Þetta var áttundi bikarmeistaratitill Akureyringa og ef marka má hvernig liðið er samansett er ekki ólíklegt að einhverjir bætist við á næstu árum.

Satt best að segja leist mér ekkert á blikuna þegar ég horfði á upphitunina hjá liðunum því KA-menn voru svo óhugnanlega sterkir. En Kópavogspiltar sýndu þó með góðum leik að vel má velgja norðanmönnum undir uggum. En til þess þarf vandvirkni og endalausa baráttu. Það höfðu HK-ingar á löngum köflum í gær.

Eftir jafna og skemmtilega fyrstu hrinu, sem KA vann 25:23, byrjarði HK vel í þeirri næstu en síðan hrökk allt í baklás. Sóknarleikurinn hreinlega hrundi og var uppspilarinn ekki öfundsverður að reyna að vinna úr því sem átti að vera á hann. Þetta var til þess að sóknir liðsins urðu einfaldar og fyrirsjáanlegar svo mjög að nokkrum sinnum náðu norðanmenn að vera með þriggja manna hávörn á móti miðjusmassi. Þá er ekki von á góðu. KA vann aðra hrinuna 25:16 og töldu nú margir að þetta yrði létt hjá KA.

Eins og oft vill verða þegar lið er komið í 2-0 slakar það á, þó svo það sé alls ekki ætlunin. HK-menn hrukku í gírinn og unnu þriðju hrinuna 25:16 en í þeirri fjórðu urðu þeir að játa sig sigraða eftir mikið jafnræði, 25:22.

„Nei, þetta var ekki léttara en við áttum von á. HK er með sterkt lið og við höfum spilað marga hörkuleiki, þannig að við áttum von á erfiðum leik. Ég er mjög sáttur að við skyldum ná að klára þetta,“ sagði Ævar Freyr Birgisson, fyrirliði KA, eftir leikinn.

„Við duttum aðeins niður í þriðju hrinu og allt virtist stefna í oddahrinu en við náðum að vinna okkur inn í fjórðu hrinuna og hafa betur í henni.

Nú byrjar baráttan um Íslandsmeistaratitilinn á fimmtudaginn og við erum ekkert að velta þessu neitt fyrir okkur. Við ætlum okkur að ná í þann bikar líka,“ sagði fyrirliðinn.

„KA er með rosalega sterkt lið, sérstaklega fyrstu sjö leikmennirnir. Ég er ágætlega sáttur við leik okkar þó svo það hafi vantað einhvern neista hjá okkur í fyrstu tveimur hrinunum. Seinni tvær voru flottar og við létum þá virkilega hafa fyrir þessu og vonandi mætum við þeim í úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn. Þeir eru að tala um einhverja þrennu, en við vonum ekki,“ sagði Lúðvík Már Matthíasson, fyrirliði HK, eftir leikinn.

Sjá allt um bikarúrslitaleikina í blaki í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »