Dvínandi líkur á Ólympíuleikum í júlí

Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ.
Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég tel að líkurnar á því að Ólympíuleikarnir í Tókýó 2020 muni fara fram á réttum tíma séu mjög dvínandi,“ sagði Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Margir íþróttamenn hafa stigið fram að undanförnu og kallað eftir því að leikunum verði aflýst vegna kórónuveirunnar. Þá hefur Ólympíusamband Kanada greint frá því að þeir ætli sér ekki að senda íþróttamenn á leikana ef þeir muni hefjast 24. júlí eins og til stendur og bæði Ástralía og Pólland hafa skorað á Alþjóðaólympíusambandið að fresta leikunum.

„Mér finnst afar ólíklegt að leikarnir muni fara fram ef stór hluti þeirra íþróttamanna, sem eru með keppnisrétt á leikunum, mæta ekki. Eins og staðan er núna þá finnst mér líklegra en ekki að leikunum verði frestað og ég hef ekki trú á öðru en að menn hafi skilning ef sú ákvörðun verður niðurstaðan. Faraldurinn hefur t.d. ekki náð hámarki í Bandaríkjunum og þeir eru á eftir Evrópu. Menn hljóta að skilja það að þetta eru mjög krefjandi og erfiðar aðstæður fyrir íþróttafólkið sem er í stökustu vandræðum með æfingar og undirbúning, sér í lagi þar sem útgöngubann gildir.“

Margir hafa kallað eftir því að leikunum verði frestað um eitt til tvö ár en á dögunum greindu Japanir frá því að þeir væru tilbúnir að fresta leikunum fram á haustið 2020.

„Ég lít ekki á sjálfan mig sem einhvern sérfræðing í þessum málum en það sem getur gerst, ef leikunum verður frestað, er að þeir munu þá mögulega skarast við aðra stóra viðburði eins og t.d heimsmeistaramót í fótbolta og þannig yrðu áhrifin mikil og víðtæk. Það er ansi þétt dagskrá af íþróttaviðburðum næstu sumrin og það er kannski það sem menn horfa mest til. Ég vil ekki segja hvað sé heppilegasta að gera en að fresta þessu væri best. Hvort það verður um nokkra mánuði, ár eða tvö, þarf svo bara að koma í ljós,“ sagði Lárus í samtali við mbl.is.

Anton Sveinn McKee er eini Íslendingurinn sem hefur unnið sér …
Anton Sveinn McKee er eini Íslendingurinn sem hefur unnið sér inn keppnisrétt á leikunum enn sem komið er. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is