Hægt á ólympíueldinum og breytt um form

Ólympíueldurinn logar í Ofunato þessa dagana.
Ólympíueldurinn logar í Ofunato þessa dagana. AFP

Japanska undirbúningsnefndin fyrir Ólympíuleikana 2020 í Tókýó tók síðasta fimmtudag við ólympíueldinum úr höndum Grikkja í Aþenu og fyrirhugað var að hefja hlaup með hann um gjörvallt Japan frá og með komandi fimmtudegi, 26. mars.

Nú hefur japanska ríkisútvarpið, NHK, greint frá því að hægt verði verulega á þessum viðburði þangað til endanlega ákvörðun um hvort leikarnir verði haldnir í sumar eða ekki verði tekin.

Í  gærkvöld gaf Alþjóðaólympíunefndin, IOC, til kynna í fyrsta skipti að það gæti komið til greina að fresta leikunum vegna kórónuveirunnar og gaf sér fjórar vikur til að komast að endanlegri niðurstöðu.

Samkvæmt NHK verður eldurinn fluttur í ljóskerjum í stað kyndla og í stað boðhlaups þar sem einn íþróttamaður tekur við kyndlinum af öðrum yrði frekar um „ferðalag“ með eldinn að ræða að þessu sinni.

Eldurinn logar þessa dagana á kyndli í borginni Ofunato, fyrir norðan Tókýó, en hún fór illa út úr jarðskjálftanum og flóðbylgjunni sem skall á svæðinu árið 2011. Fjórðungur húsa í borginni eyðilagðist og 305 manns fórust.

mbl.is