Japanir fallast á að frestun komi til greina

Yasuhiro Yamashita er forseti japönsku ólympíunefndarinnar.
Yasuhiro Yamashita er forseti japönsku ólympíunefndarinnar. AFP

Yasuhiro Yamashita, forseti japönsku ólympíunefndarinnar, segir að nauðsynlegt sé að skoða þann möguleika að fresta Ólympíuleikunum sem fram eiga að fara í Tókýó í sumar.

Alþjóðaólympíunefndin, IOC, ljáði í gærkvöld í fyrsta sinn máls á því að til greina kæmi að fresta leikunum sem eiga að hefjast í japönsku höfuðborginni 24. júlí, vegna kórónuveirunnar. Í kjölfarið hefur ákall um frestun verið afar sterkt og komið víðs vegar að úr heiminum. Þá hefur Kanada tilkynnt að landið muni ekki senda keppendur á leikana ef þeir fara fram í sumar.

„Frá sjónarhóli íþróttafólksins um öryggi erum við komnir á það stig að við getum ekki annað en skoðað alla möguleika, þar á meðal frestun. En við verðum að gæta þess að of löng frestun myndi orsaka álag á íþróttafólkið sem þá stæði m.a. frammi fyrir því að tryggja sér keppnisrétt á nýjan leik,“ sagði Yamashita við  fréttamenn í Japan í dag.

mbl.is