Kallar eftir tveggja ára frestun

Carl Lewis vann til níu gullverðlauna á Ólympíuleikunum á árunum …
Carl Lewis vann til níu gullverðlauna á Ólympíuleikunum á árunum 1984 til ársins 1996. AFP

Bandaríski frjálsíþróttamaðurinn Carl Lewis hefur kallað eftir því að Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 sem eiga að hefjast 24. júlí næstkomandi verði frestað til ársins 2022. Lewis er orðinn 58 ára gamall en hann vann til níu gullverðlauna á Ólympíuleikunum á árunum 1984 til ársins 1996 í 100 metra hlaupi, 200 metra hlaupi, 4x100 metra boðhlaupi og langstökki.

„Það eina rétta er í stöðunni er að strika yfir keppnistímabilið 2020,“ sagði Lewis í samtali við Reuters-fréttastofuna. „Öll heimsbyggðin þarf að standa saman núna og byrja að endurskipuleggja 2021-tímabilið. Það á eftir að valda mörgum ákveðnum sársauka að strika tímabilið út en ég held að það sé nauðsynlegt.

Við lifum á fordæmalausum tímum þar sem stjórnvöld í heiminum í dag keppast nú við að loka landamærum sínum og meina fólki að fara út úr húsi. Ég held að Ólympíuleikunum í Tókýó verði frestað og það er það eina rétta í stöðunni. Að færa leikana til ársins 2022 er besta útfærslan að mínu mati og halda þá sumar- og vetrarleika á sama tíma, eins og í gamla daga,“ bætti Lewis við.

mbl.is