Nepo jók forskotið á áskorendamótinu í skák

Jan Nepomnja­sjt­sjí er heilum vinningi á undan næsta keppanda á …
Jan Nepomnja­sjt­sjí er heilum vinningi á undan næsta keppanda á áskorendamótinu í skák þegar sex umferðum er lokið. Ljósmynd/Maria Emelianova/Chess.com

Jan Nepomnja­sjt­sjí er heilum vinningi á undan næsta keppanda á áskorendamótinu í skák þegar sex umferðum er lokið eftir að hann vann sigur á Kínverjanum Ding Liren sem er næststigahæsti keppandinn á mótinu. Nepo hefur því unnið báða Kínverjana á mótinu og er með fjóra og hálfan vinning. Frakkinn Maxime Vachier-Lagrave kemur næstur með þrjá og hálfan vinning.

Nepo er fæddur árið 1990, sama ár og heimsmeistarinn Magnus Carlsen og Vachier-Lagrave, en komst fyrst inn á topp tíu listann í skák í fyrra og situr núna í fimmta sæti heimslistans. Lengi hefur verið vitað að Nepo er einstaklega hæfileikaríkur skákmaður og hann hefur lengi verið meðal efstu manna á stigalistanum í hraðskák. Hann hefur samt verið of kærulaus, mistækur og teflt of hratt til að komast í fremstu röð í almennri kappskák þar til á síðustu misserum.

Anish Giri vann sína skák gegn stigalægsta keppandanum, Rússanum Kirill Alekseenko en hinum skákunum tveimur lauk með jafntefli.

Ekki verður teflt á morgun en sjöunda umferðin fer fram á miðvikudaginn og er þá mótið hálfnað.

mbl.is