Þegar búið að ákveða frestun

Dick Pound er reyndasti meðlimur IOC.
Dick Pound er reyndasti meðlimur IOC. AFP

Dick Pound, reyndasti meðlimurinn í stjórn Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC, fullyrðir að þegar sé búið að ákveða að fresta Ólympíuleikunum sem hefjast eiga í Tókýó 24. júlí, enda þótt ekki sé búið að gefa það út opinberlega.

IOC gaf út í fyrrakvöld að mögulegt væri að leikunum yrði frestað vegna kórónuveirunnar en ekki yrði tekin endanlega ákvörðun um það fyrr en eftir mánuð.

„Það hefur þegar verið ákveðið að fresta leikunum og það er byggt á þeim upplýsingum sem IOC hefur fengið. Þetta er ekki endanlega frágengið en leikarnir munu aldrei hefjast 24. júlí. Það get ég fullyrt," segir hinn 77 ára gamli Pound í viðtali við USA Today.

„Þetta mun gerast í áföngum. Ólympíuleikunum verður frestað og síðan þurfa menn að takast smám saman á við allar afleiðingarnar af því. Þær eru gríðarlegar," segir Pound sem var varaforseti IOC frá 1987  til 1991 og aftur frá 1996 til 2000, og situr enn í nefndinni.

mbl.is