Okkar fólk er í vanda statt

Þórður Árni Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra.
Þórður Árni Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra. mbl.is/Hari

„Það er ákveðin óvissa í gangi núna með Ólympíuleikana og Paralympics,“ sagði Þórður Árni Hjaltested, formaður íþróttasambands fatlaðra, í samtali við mbl.is í gær.

Paralympics eiga að fara fram dagana 25. ágúst til 6. september í Tókýó í Japan en leikarnir eiga að hefjast rúmum mánuði eftir að Ólympíuleikarnir eiga að hefjast í Japan.

Margir íþróttamenn hafa hins vegar kallað eftir því að leikunum verði frestað vegna kórónuveirunnar og þá hafa þjóðir á borð við Kanada afboðað komu sína á leikana, fari svo að þeir fari fram á tilsettum tíma. Pressan þyngist því á Alþjóðaólympíunefndina um að fresta leikunum.

„Við fengum fréttir frá Alþjóðaparalympicsnefndinni í fyrradag þar sem kom fram að næstu tvær vikur færu í það að teikna upp ákveðnar sviðsmyndir af því hvernig hægt væri að fresta leikunum. Paralympics er hluti af pakkanum sem samið er um þegar samið er um sjálfa Ólympíuleikana og forseti Ólympíusambands fatlaðra á sæti í stjórn Alþjóðaólympíusambandsins. Í bréfinu, sem sent var í fyrradag, kom fram að menn ætla að taka sér tveggja vikna umhugsunarfrest og skoða alla þá möguleika sem í boði eru varðandi frestun.

Það kom einnig skýrt fram að fólk vill alls ekki aflýsa leikunum heldur einungis fresta þeim. Þetta er ákveðið samningsatriði við Japanina og þær fjárfestingar sem þeir eru búnir að leggja út fyrir. Þetta hefur einnig áhrif á á þau mót sem búið er að skipuleggja inn í framtíðina, eins og Evrópumót karla og kvenna á næsta ári sem dæmi.“

Heims- og Evrópumeistarinn Helgi Sveinsson er einn af þeim sem …
Heims- og Evrópumeistarinn Helgi Sveinsson er einn af þeim sem á eftir að ná lágmörkum fyrir leikana. Ljósmynd/ÍF

Fjárhagslegt tjón fyrir ÍF

Þórður viðurkennir að aðstæður í heiminum í dag vegna kórónuveirunnar séu afar erfiðar fyrir íþróttafólk.

„Okkar fólk er í vanda statt og á erfitt með að sinna æfingum til dæmis vegna samkomubanna og öðru því tengdu. Svo eru líka margir sem hafa ætlað sér að ná lágmörkum fyrir leikana í vor, eins og Helgi Sveinsson spjótkastari og Patrekur Andrés Axelsson spretthlaupari, en það er búið að blása flest allar undankeppnir af vegna veirunnar. Það sama má segja um sundfólkið okkar og eins og staðan er í dag er trúlega einn karl og ein kona komin með keppnisrétt. Það gæti því vel farið svo að við þyrftum velja keppnisfólk til að taka þátt í leikunum ef engar undankeppnir verða og leikunum verður ekki fresta. ÍF, íþróttasamband fatlaðra, var búið að fjárfesta út um allar trissur fyrir okkar fólk í bæði flugi, hótelum og öðru tengdu þessum undankeppnum sem hafa verið blásnar af og því er þetta einnig fjárhagslegt tjón fyrir sambandið.“

Ólympíusamband Kanada tilkynnti það í gær að þeirra íþróttamenn myndu …
Ólympíusamband Kanada tilkynnti það í gær að þeirra íþróttamenn myndu ekki mæta á leikana ef þeir fara fram á tilsettum tíma. AFP

Þurfa allir að kveða veiruna niður

Þórður vill fresta leikunum og bendir á að réttast væri að fresta þeim um eitt til tvö ár en ekki fram á næsta haust eins og verið hefur í umræðunni.

„Ég er orðinn talsmaður þess að það eigi að fresta leikunum. Landlæknir og sóttvarnalæknir hafa kynnt okkur þessa kúrfu smita og það þýðir að veiran mun ná hámarki um miðjan apríl hér heima. Það mun taka kúrfuna einhverja þrjá mánuði að lækka aftur og þetta er mun viðfangsmeira hjá þessum stærri og fjölmennari þjóðum. Þó að við náum að verða sóttfrí þá opnast heimurinn ekki fyrr en allir eru búnir að kveðja þessu veiru niður. Mér þykir því líklegt að þessu verði frestað um eitt til tvö ár ef við horfum raunsætt á þetta,“ sagði Þórður í samtali við mbl.is.

mbl.is