Snýst allt um að bjarga mannslífum

Thomas Bach er forseti IOC, Alþjóðaólympíunefndarinnar.
Thomas Bach er forseti IOC, Alþjóðaólympíunefndarinnar. AFP

Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC, segir að kostnað við frestun Ólympíuleikanna í Tókýó hafi ekki borið á góma í viðræðum sínum við Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, í morgun, enda hafi viðræðurnar snúist um björgun mannslífa.

Í kjölfar fundar þeirra var tilkynnt að leikunum og Ólympíumóti fatlaðra, Paralympics, hefði verið frestað og mótin færu fram í síðasta lagi næsta sumar.

„Þetta snýst um að bjarga mannslífum," sagði Bach þegar hann ræddi við fréttamenn með fjarfundabúnaði í dag og tók fram að dagsetningar hefðu ekki verið ákveðnar og ekkert hefði verið rætt um hvaða kostnað frestunin hefði í för með sér. 

„Ég get ekki svarað því nákvæmlega tveimur tímum eftir að þetta var ákveðið. Það er einmitt þessvegna sem við höfðum áður áætlað okkur að minnsta kosti fjórar vikur til að geta svarað öllum spurningum. Þetta eru alls ekki þær einu," sagði Bach.

Í máli hans kom fram að stóraukin útbreiðsla kórónuveirunnar síðustu daga hefði rekið á eftir því að ákvörðun um frestun yrði tekin. „Við vorum sammála því að vegna þessara aðstæðna yrði að finna nýjar dagsetningar fyrir leikana, ekki þó síðar en sumarið 2021," sagði Bach.

Tókýóborg hefur þegar varið 12 milljörðum dollara í undirbúning vegna Ólympíuleikanna en IOC, samkvæmt frétt Reuters, og skipuleggjendur leikanna þurfa nú að hafa samráð við fulltrúa 33 íþróttagreina um endurskipulagninguna.

mbl.is