Yfirgnæfandi meirihluti vill frestun

Christian Taylor hefur verið besti þrístökkvari heims í áratug.
Christian Taylor hefur verið besti þrístökkvari heims í áratug. AFP

Samtök frjálsíþróttafólks, The Athletics Association, vilja að Ólympíuleikunum 2020 í Tókýó verði frestað, samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar sem samtökin gengust fyrir innan sinna raða.

Bandaríkjamaðurinn Christian Taylor, tvöfaldur ólympíumeistari í þrístökki sem stofnaði samtökin á síðasta ári, segir að 78 prósent frjálsíþróttafólks vilji samkvæmt könnun að leikunum sé frestað en 22 prósent vilji að þeim verði algjörlega aflýst.

„Það er lágmark að fresta Ólympíuleikunum um eitt ár. IOC (Alþjóðaólympíunefndin) segist ætla að ákveða það eftir fjórar vikur en það eykur bara óvissuna og þýðir að við erum í lausu lofti," skrifaði Taylor í pistli í The Times í dag.

Meira en fjögur þúsund frjálsíþróttamenn tóku þátt í könnuninni og 87 prósent þeirra sögðu að undirbúningur þeirra hefði orðið fyrir verulegum truflunum vegna kórónuveirunnar.

„Ég get ekki stokkið, ég hef ekki aðgang að neinni sandgryfju. Ég hef ekki sett á mig stökkskóna í tvær vikur," segir Christian Taylor um stöðuna hjá sjálfum sér en hann vann þrístökkið bæði í London 2012 og Ríó 2016 og varð heimsmeistari í Doha síðasta haust.

mbl.is