Smit á einum uppáhalds keppnisstað Íslendinga

Íslensku landsliðsmennirnir fagna sætum sigri á Frökkum í Copper Box …
Íslensku landsliðsmennirnir fagna sætum sigri á Frökkum í Copper Box á ÓL 2012. mbl.is/Golli

Víða horfir nú íþróttafólk og áhorfendur í baksýnisspegilinn og veltir fyrir sér hvort hætta hefði fyrr að halda úti ýmsum íþróttaviðburðum vegna kórónaveirunnar. 

Alþjóða ólympíunefndin er nú harkalega gagnrýnd fyrir að hafa látið undankeppni í hnefaleikum fyrir leikana í Tókíó fara fram í London nú í mars. Keppt var í þrjá daga áður en keppni var hætt vegna veirunnar. 

Tyrkneska hnefaleikasambandið hefur tilkynnt um að tveir tyrkneskir keppendur sem tóku þátt í undankeppninni séu smitaðir af veirunni. 

Forráðamenn tyrkneska hnefaleikasambandsins fara hörðum orðum um Alþjóða ólympíunefndina og segja meðal annars að þar á bæ sé fólki einfaldlega sama um veiruna og hættuna sem henni fylgir. 

Höllin þar sem keppendur smituðust hefur reynst Íslendingum einkar vel. Keppt var í Copper Box-höllinni á ólympíusvæðinu í London en þar vann íslenska handboltalandsliðið alla fimm leiki sína á leikunum 2012 og körfuboltalandsliðið vann þar sigur á Bretum sem svo gott sem tryggði liðinu sæti á EM í fyrsta sinn. 

mbl.is