Geta ekki krafist skaðabóta vegna niðurfellingar æfinga

Iðkendur hjá íþróttafélaginu Fjölni. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Iðkendur hjá íþróttafélaginu Fjölni. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Ljósmynd/UMFÍ

Sú staðreynd að íþróttafélög geta ekki veitt þjónustu sína telst ekki vanefnd gagnvart iðkendum, enda er um að ræða fordæmalausar aðstæður sem teljast til ófyrirséðra ytri atvika sem ekki var unnt að koma í veg fyrir. Iðkendur geta því hvorki krafist þess að æfingar fari fram með hefðbundnu sniði né krafist skaðabóta vegna þess að þær falla niður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍSÍ og UMFÍ.

Í tilmælum til íþróttafélaga er lögð áhersla á að ábyrgð og ákvörðun um tilhögum æfingagjalda sé alfarið á forræði aðildarfélaganna sjálfra og deilda þeirra.

Hins vegar er mælt með því að félögin haldi áfram að þjónusta iðkendur með fjar- og heimaæfingum eins og best er á kostur. Þá er einnig mælt með því að félögin komi til móts við iðkendur og forráðamenn með því að lengja æfingatímabilið eða bjóða upp á aukaæfingar og námskeið.

„Ljóst er að allir landsmenn standa saman gegn vágestinum sem nú skekur heimsbyggðina. Aðdáunarvert að sjá að allir leggja sitt af mörkum til að hefta útbreiðslu hennar. Margir leggja mikið á sig í því verki. Starfsfólk, þjálfarar og iðkendur íþróttafélaga hafa þrátt fyrir aðstæður reynt eftir bestu getu að uppfylla skyldur sínar þrátt fyrir fordæmalausar aðstæður og hvetjum við til þess að svo verði áfram,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Kórónuveiran

31. maí 2020 kl. 15:31
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir