290 milljóna trygging margborgaði sig

Rafael Nadal í undanúrslitaleik gegn Roger Federer á síðasta Wimbledon-móti …
Rafael Nadal í undanúrslitaleik gegn Roger Federer á síðasta Wimbledon-móti sumarið 2019 þar sem Federer hafði betur. Hann tapaði síðan fyrir Novak Djokovic í úrslitaleiknum. AFP

Skipuleggjendur Wimbledon-mótsins, elsta og þekktasta risamótsins í tennis, munu fá rúmlega 20 milljarða króna úr tryggingum eftir að hafa þurft að aflýsa mótinu vegna kórónuveirufaraldursins. Forbes greinir frá þessu.

All England Club, tennisklúbburinn sem skipuleggur mótið, hefur síðustu 17 ár greitt um tvær milljónir dala (tæplega 290 milljónir króna) árlega í svokallaða heimsfaraldurstryggingu, sem tryggir klúbbinn fyrir tapi þurfi að aflýsa mótinu af þeim sökum.

Til stóð að mótið hæfist í lok júní, venju samkvæmt, en mótinu var aflýst í byrjun mánaðar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Mótið hefur verið haldið árlega frá árinu 1877, en síðast þurfti að aflýsa því er seinni heimsstyrjöldin geisaði. Áætlanir gerðu ráð fyrir að tekjur af mótinu næmu um 45 milljörðum króna, en þar af fara 6 milljarðar í verðlaunafé. Er því ljóst að tryggingin dekkar stærstan hluta af tapi mótshaldara.

mbl.is

Kórónuveiran

30. maí 2020 kl. 14:00
-1802
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir