214 félög fengu fjármagn frá ríkinu

Fjölnir fékk mest allra íþróttafélaga eða rúmlega 18,5 milljónir íslenskra …
Fjölnir fékk mest allra íþróttafélaga eða rúmlega 18,5 milljónir íslenskra króna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur greitt um 300 milljónir króna af 450 milljón króna framlagi íslenskra stjórnvalda til íþróttahreyfingarinnar vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta kemur fram á heimasíðu ÍSÍ. Þann 25. mars síðastliðinn var skipaður starfshópur af ÍSÍ sem átti að sjá um að úthluta um 500 milljón króna styrk úr ríkissjóði til félaganna.

Guðrún Inga Sívertsen, fyrrverandi varaformaður KSÍ, fór fyrir hópnum og með henni voru þeir Hörður Þorsteinsson, formaður Badmintonfélags Hafnafjarðar og fyrrverandi framkvæmdastjóri GSÍ, og Sigurjón Pétursson, varaforseti Alþjóða kraftlyftingasambandsins, fyrrverandi varaformaður HSÍ og fyrrverandi formaður KRAFT.

Alls fengu 214 félög innan ÍSÍ greiðslur og það er svo í höndum aðalstjórna félaganna að ráðstafa fjármagninu eins og best verður á kosið. Í tilkynningu frá ÍSÍ kemur fram að ekki sé um beina styrki til félaganna að ræða heldur framlag sem sé hugsað til þess að koma til móts við það tjón sem félögin hafa orðið fyrir vegna kórónuveirunnar.

Starfshópur ÍSÍ vann eftir ákveðnum reiknireglum þegar útlutunin var gerð, en þær miðast einna helst við fjölda iðkenda hjá hverju félagi fyrir sig. Þá var einnig tekið með í reikninginn að úthlutun til einstaks íþróttafélags gat ekki orðið hærri en 3% af veltu félagsins og þá var horft til félaga sem starfrækja íþróttastarf fyrir börn og unglinga á aldrinum 6 til 18 ára.

Fjölnir í Grafarvogshverfi fékk mest allra félaga, eða rúmlega 18,5 milljónir íslenskra króna. Þar á eftir kemur Breiðblik í Kópavogi, sem fékk rúmlega 16 milljónir króna. Stjarnan í Garðabæ fékk rúmlega 15,5 milljónir íslenskra króna og HK í Kópavogi fékk rúmlega 13 milljónir króna. Þá fékk Fylkir í Árbænum tæplega 11 milljónir króna.

Úhlutunina í heild sinni má sjá með því að smella hér.

mbl.is