Aflýsa Ólympíuleikunum frekar en að fresta aftur

Thom­as Bach er for­seti Alþjóðaólymp­íu­nefnd­ar­inn­ar.
Thom­as Bach er for­seti Alþjóðaólymp­íu­nefnd­ar­inn­ar. AFP

Thom­as Bach frá Þýskalandi, for­seti Alþjóðaólymp­íu­nefnd­ar­inn­ar IOC, segir það ekki koma til greina að fresta Ólympíuleikunum í Tókýó á nýjan leik. Geti þeir ekki farið fram á næsta ári verður þeim einfaldlega aflýst. 

Áttu leikarnir að fara fram í sumar, en vegna kórónuveirunnar var þeim frestað til sumarsins 2021. Hefur frestunin reynst gríðarlega kostnaðarsöm og hafa japanskir fjölmiðlar sagt að kostnaður geti verið á milli tveggja og sex millj­arða doll­ara.

„Forsætisráðherra Japans setti mjög skýrt fram að sumarið 2021 væri síðasti möguleikinn til að halda leikana. Ég hef skilning á því enda gengur ekki að hafa 3.000 til 5.000 manns í vinnu í skipulagsnefnd að eilífu.

Þá er ekki hægt að umturna íþróttadagatali allra alþjóðlegu íþróttasambandanna árlega og ekki hægt að bjóða íþróttafólki upp á þessa óvissu,“ sagði Bach í samtali við BBC. „Það er gríðarleg vinna sem fer í þetta og við þurfum að finna hjólið upp á hverjum degi í starfinu sem við erum að vinna,“ bætti hann við. 

mbl.is