Allt í öllu í sigri Darmstadt

Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmaðurinn Guðlagur Victor Pálsson átti frábæran leik fyrir Darmstadt 98 í þýsku B-deildinni í knattspyrnu í dag og skoraði og lagði upp mark í 4:0 sigri liðsins á St. Pauli.

Guðlaugur lagði upp fyrsta markið á 7. mínútu og innsiglaði svo sigurinn á 90. mínútu.

Um aðra umferð þýska boltans er að ræða eftir að leikar hófust á ný þar í landi eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á heimsbyggðinni.

Darmstadt er í 5. sæti deildarinnar með 39 stig eftir 27 umferðir og er sex stigum frá umspilssæti um sæti í efstu deild þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu.

Rúrik Gíslason var ekki í leikmannahópi Sandhausen sem gerði markalaust jafntefli við Jahn Regensburg.

Sandhausen hefur 30 stig í 14. sæti og er tveimur stigum frá fallsæti.

mbl.is