Fyrsti sigurinn hjá Norðmönnum (myndskeið)

Viktor Hovland og kylfusveinn hans, Shay Knight, fagna eftir púttið …
Viktor Hovland og kylfusveinn hans, Shay Knight, fagna eftir púttið ótrúlega. AFP

Norðmaðurinn Viktor Hovland fagnaði dramatískum sigri á opna Puerto Rico-mótinu á PGA-mótaröðinni um helgina en hann er aðeins 22 ára gamall. Þetta var hans fyrsti sigur á mótaröðinni og í fyrsta sinn sem kylfingur frá Noregi nær þeim árangri.

Hovland var með eins höggs forystu fyrir lokahringinn og tryggði sér ekki sigur fyrr en á 18. og síðustu holu mótsins. Hann fékk þrefaldan skolla á 11. holu og virtust þá vonir hans úti en hann sneri taflinu snarlega við, fékk örn á 15. holu og tryggði sigur á mótinu með löngu pútti og fugli á 18. holu.

Hann lauk því keppni á samtals 20 höggum undir pari og sigraði með einu höggi en hann gerðist atvinnukylfingur á síðasta ári. Þar áður var hann efsti maður á heimslista áhugamanna. Josh Teater var í 2. sæti og þeir Kyle Stanley, Sam Ryder og Emiliano Grillo voru jafnir í 3. sæti en þeir léku á 15 höggum undir pari.

Sem fyrr segir var þetta í fyrsta sinn sem kylfingur frá Noregi vinnur sigur á PGA-mótaröðinni en hér að neðan má hlusta á stórskemmtilega lýsingu norsku sjónvarpsmannanna á sigurpútti Hovland.

mbl.is