Gómaður með herðatré fyrir framan spegil

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi, sat fyrir svörum í netútsendingu hjá GKG í vikunni. Kom þar ýmislegt skemmtilegt fram. 

Birgir lengi atvinnumaður í íþróttinni og er eini íslenski karlkylfingurinn sem fengið hefur keppnisrétt á Evrópumótaröðinni en auk þess var hann árum saman á Áskorendamótaröðinni þar sem Guðmundur Ágúst Kristjánsson er nú með keppnisrétt. 

Andrés Davíðsson, sem þjálfaði Birgi um tíma, beindi spurningum til Birgis og rifjaði upp sögur úr atvinnumennskunni. Andrés rifjaði til dæmis upp að hann og Birgir hefðu verið teknir á beinið af hótelstjóra erlendis þegar Birgir var að keppa í móti á mótaröðinni og var hótað að reka þá af hótelinu. Þá höfðu þeir félagar fært húsgögnin til á hótelherberginu til að koma sér upp æfingaaðstöðu en slíku átti hótelstjórinn ekki að venjast. 

Birgir bætti þá við að atvinnumenn í golfi geti fengið tæknina og ýmis atriði á heilann. „Að vera atvinnumaður í golfi er hálf einhverft. Maður verður hálf grillaður og „obsessed“, ef ég má sletta svolítið mikið, yfir því sem maður er að reyna að bæta. Allur aukatími er nýttur eins vel og hægt er, til dæmis á hótelherbergi. Konan hefur náttúrlega farið með mann í „mall“ í Ameríku og maður er að elta hana í búðum. Þá er maður gómaður fyrir framan spegil með herðatré að æfa sveifluna. Maður þarf svolítið að setja hausinn í þetta. En auðvitað er bara eðlilegt að atvinumaður í golfi setji upp æfingaaðstöðu inni á herbergi. Mér fannst nú bara ósanngjarnt af hótelstjóranum að setja þetta í gang,“ sagði Birgir léttur. 

Andrés Jón Davíðsson fylgist með á æfingasvæðinu.
Andrés Jón Davíðsson fylgist með á æfingasvæðinu. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is