Meira svigrúm til að komast til Tókýó

Valdís Þóra Jónsdóttir á Evrópumótaröðinni í Suður-Afríku í síðasta mánuði …
Valdís Þóra Jónsdóttir á Evrópumótaröðinni í Suður-Afríku í síðasta mánuði en þar fékk hún mikilvæg stig. Ljósmynd/LET

Íslenskir kylfingar með Valdísi Þóru Jónsdóttur fremsta í flokki fá lengri tíma til að vinna sér inn keppnisrétt á næstu Ólympíuleikum.

Leikunum í Tókýó var sem kunnugt er frestað til sumarsins 2021 og í dag tilkynnti Alþjóða golfsambandið, IGF, að kylfingar hafi nú svigrúm fram í júní á næsta ári til að tryggja sér þann stigafjölda sem með þarf til að komast inn á leikana. Lokadagsetning fyrir karlana er 12. júní 2021 og fyrir konurnar 28 júní.

Sextíu kylfingar af hvoru kyni fá keppnisrétt á leikunum og takmörk eru á fjölda frá hverri þjóð fyrir sig. Valdís skýrði frá því í viðtali við Morgunblaðið á dögunum að hún þyrfti að komast upp um nálægt 100 sæti á heimslistanum til að vinna sér sæti á Ólympíuleikunum.

Hún er nú í 536. sæti heimslistans í kvennaflokki og hefur farið vel af stað á Evrópumótaröðinni. Guðrún Brá Björgvinsdóttir keppir þar í fyrsta skipti í ár og er í 874. sæti listans. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir keppir á Symetra-mótaröðinni, þeirri næststerkustu í Bandaríkjunum, og er í 875. sæti listans.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er efstur íslenskra karla á heimslista þeirra en hann er í 596. sæti. Haraldur Franklín Magnús kemur næstur í 631. sæti.

mbl.is