Stjörnufans í maí?

Phil Mickelson og Tiger Woods
Phil Mickelson og Tiger Woods AFP

Útlit er fyrir að Tiger Woods og Phil Mickelson muni aftur takast á í keppni til styrktar góðu málefni og er fyrirhugað að keppnin verði í maí. Í þetta skiptið verða tvær frægar kempur úr ameríska fótboltanum með þeim.

Ef af verður þá munu Tiger Woods og Peyton Manning keppa gegn Phil Mickelson og Tom Brady en frá þessum fyrirætlunum var skýrt um síðustu mánaðamót. Ekki hefur ennþá verið staðfest að viðburðurinn fari fram en samkvæmt ýmsum golffjölmiðlum er gert ráð fyrir því í maí. Tekjurnar munu að þessu sinni renna til þeirra sem berjast við kórónuveiruna og kemur kannski ekki á óvart.

Tom Brady
Tom Brady AFP

 Tiger og Mickelson hafa áður mæst í góðgerðaviðburði og var kallað The Match. Væntanlega verður sama heiti notað áfram en þeir höfðu báðir talað um að líklegt væri að þeir myndu endurtaka leikinn. Viðburðurinn var fyrst og fremst sjónvarpsviðburður enda skipulagður af þeim sjálfum en ekki  PGA-mótaröðinni eða slíkum aðilum. Samkomubannið ætti því ekki endilega að hafa áhrif á viðureignina í maí þar sem keppnin er hugsuð með sjónvarp í huga.

Peyton Manning.
Peyton Manning. AFP

Tom Brady er sigursælasti leikmaður NFL deildarinnar frá upphafi með sex meistaratitla. Manning var einnig leikstjórnandi eins og Brady en hætti árið 2015. Hann sigraði tvívegis í NFL og var fimm sinnum leikmaður ársins. 

Brady er þegar byrjaður að kynda undir á samfélagsmiðlum eins og sjá má. 

mbl.is