Ólafur byrjar golfsumarið með látum

Ólafur Björn Loftsson á Íslandsmótinu í fyrra.
Ólafur Björn Loftsson á Íslandsmótinu í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Björn Loftsson, sem nú keppir fyrir GKG, er ekki dauður úr öllum æðum á golfvellinum.

Ólafur byrjaði golfsumarið með miklum látum þegar opna Ecco-mótið fór fram á Hlíðavelli í Mosfellsbæ á laugardaginn.

Ólafur skilaði inn frábæru skori og lék á 64 höggum. Fékk hann tíu pör og átta fugla á hringnum. 

Ólafur er eini íslenski kylfingurinn sem leikið hefur á PGA-móti og gerði það árið 2011. Komst inn í gegnum úrtökumót og keppti á Wyndham-meistaramótinu. Ólafur starfar í dag sem framkvæmdastjóri PGA á Íslandi. 

Andri Þór Björnsson á Íslandsmótinu í fyrra.
Andri Þór Björnsson á Íslandsmótinu í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingarnir íslensku eru nú hér heima við og tveir þeirra skiluðu einnig inn virkilega góðu skori. Andri Þór Björnsson var á 66 höggum og Haraldur Franklín Magnús á 69 höggum en báðir eru þeir úr GR.

Skorið er áhugavert þar sem Íslandsmótið í golfi mun í sumar fara fram í Mosfellsbænum í fyrsta skipti. Þremenningarnir voru þó væntanlega á gulum teigum í mótinu en ekki á hvítu meistaraflokksteigunum sem notaðir eru á Íslandsmótinu. Engu að síður frábær spilamennska snemma í maí.

mbl.is