Sterkustu kylfingar landsins mætast í Mosfellsbæ

Íslandsmeistararnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru bæði …
Íslandsmeistararnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru bæði skráð til leiks í Mosfellsbæ. mbl.is/Árni Sæberg

Sterkustu kylfingar landsins eru allir skráðir til leiks á fyrsta mót tímabilsins á heimlistamótaröðinni á Íslandi í golfi, ÍSAM-mótinu, sem fram fer á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar dagana 16. — 17. maí. Vegna kórónuveirunnar verður hins vegar leikið eftir sérstökum kórónuveiru-keppnis- og staðarreglum.

Keppendahópurinn á mótinu er gríðarlega sterkur en í kvennaflokki eru atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK), Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR) og Valdís Þóra Jónsdóttir (GL) allar skráðar til leiks. Þær kepptu síðast saman á Íslandsmótinu árið 2016 sem fram fór á Akureyri.

Í karlaflokki eru þeir Axel Bóasson (GK), Andri Þór Björnsson (GR), Bjarki Pétursson (GKB), Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR), Haraldur Franklín Magnús (GR) og Ólafur Björn Loftsson (GKG) einnig skráðir til leiks en íslenskir atvinnukylfingar hafa lítið sem ekkert getað keppt undanfarna mánuði vegna kórónuveirunnar þar sem öllum mótum hefur verið frestað.

mbl.is