Atvinnukylfingur á fullu í byggingavinnu

Axel Bóasson fylgist einbeittur með á blaðamannafundi á Hlíðavelli í …
Axel Bóasson fylgist einbeittur með á blaðamannafundi á Hlíðavelli í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingurinn Axel Bóasson ræddi við mbl.is um ÍSAM-mótið sem fram fer á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar um helgina. Mótið er það sterkasta sem haldið hefur verið hér á landi því allir bestu kylfingar Íslands mæta til leiks, þar sem ekki er leikið í mótaröðum erlendis um þessar mundir. 

„Þetta er rosalega gaman og það er gaman að allir skuli vera með. Því miður er ég ekki í alveg nægilega góðri æfingu fyrir svona stórt mót, en það er gaman að sjá hvar maður stendur núna. Langbestu kylfingar landsins eru hérna heima og líka áhugamennirnir okkar. Það verður áhugavert að sjá hvar ég stend fyrir Íslandsmótið sem er síðan í ágúst,“ sagði Axel. 

Hann hefur lítið getað æft síðustu viku, en hann hefur í nógu að snúast. „Ég er búinn að spila tvo hringi en ég er búinn að æfa voðalega lítið. Pabbi setti net í garðinum og ég hef reynt að æfa eitthvað og pútta á mottu heima en ég hef voðalega lítið æft. Sem betur fer hef ég verið að vinna, ég get verið þakklátur fyrir það,“ sagði Axel, sem virtist stirður þegar hann settist niður. Ekki er þó um meiðsli að stríða.

Vinna, golf og tveggja ára sonur

„Nei, nei, nei. Ég er bara þreyttur eftir daginn þar sem ég vinn í byggingavinnu. Maður er mikið að beygja sig, brjóta og það er ýmislegt sem maður gerir þar,“ sagði Axel, en hvernig gengur að samtvinna erfiða byggingavinnu og golfið? 

„Það gengur ágætlega. Maður þarf aðeins að mýkja líkamann meira en maður gerði þegar maður var yngri. Svo er maður með lítinn tveggja ára gutta heima. Það er nóg um að vera.“

Haraldur Franklín Magnús og Axel Bóasson leika báðir á Hlíðavelli …
Haraldur Franklín Magnús og Axel Bóasson leika báðir á Hlíðavelli um helgina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þar sem undirbúningurinn hefur ekki verið með besta móti viðurkennir Axel að hann eigi ekki endilega von á því að sigra á mótinu. „Ég er ekki með svo háleit markmið, ekki miðað við undirbúninginn,“ viðurkenndi Axel. „Ég verð að setja markmið í samanburði við það. Ég mun gera mitt besta og við sjáum hverju það skilar sér. Ég ætla að njóta þess að spila golf þessa helgina og vera í kringum þessa frábæra kylfinga.“

Axel leikur á Nordic Tour-mótaröðinni og þar er næsta mót á dagskrá í júlí. Það er hins vegar óvíst hvort það fari fram og hvort íslenskir kylfingar geti flogið út. „Fyrsta mótið er hugsanlega í júlí, en svo veit maður ekki hvenær við getum flogið út. Eins og er spila ég á Íslandi og svo fylgjumst við með og sjáum hvað gerist,“ sagði Axel. 

mbl.is