Gaman að allir séu á landinu á sama tíma

Valdís Þóra Jónsdóttir á blaðamannafundi á Hlíðavelli í dag.
Valdís Þóra Jónsdóttir á blaðamannafundi á Hlíðavelli í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta leggst vel í mig. Það er spennandi helgi fram undan og það er gaman að allir séu á landinu á sama tíma,“ sagði atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir í samtali við mbl.is í dag. 

Valdís mun ásamt öðrum sterkustu kylfingum Íslands leik á ÍSAM-mót­inu, sem fram fer á Hlíðavelli hjá Golf­klúbbi Mos­fells­bæj­ar um helgina. Hún ætlar sér stóra hluti á mótinu þar sem hún mætir Ólafíu Þórunni Kristinsdóttir og Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur á sama móti hérlendis í fyrsta skipti síðan á Íslandsmótinu 2016 á Akureyri. 

„Ég fer auðvitað í öll mót til þess að vinna. Ég fer ekki í mót til þess að vera bara með. Markmiðið er að vinna, hafa gaman og njóta þess að spila golf á þessum fordæmalausum tímum.“

Valdís er með keppnisrétt á Evrópumótaröðinni en hún þurfti að halda heim í mars þar sem öllum mótum mótaraðarinnar var frestað. Hún hefur því æft heima á Akranesi síðustu vikur. 

„Ég notaði Langasand mikið og hef verið að æfa þar og svo hef ég verið með mottur upp á Skaga til að eyðileggja ekki grasið alveg strax. Ég hef ná að æfa vel allan þann tíma sem ég hef verið hérna heima og haldið mér í fínu formi.“

Valdís Þóra Jónsdóttir
Valdís Þóra Jónsdóttir Ljósmynd/LET

Valdís segir framhaldið í óvissu, en ekki er víst hvenær hún getur haldið út á nýjan leik og keppt á atvinnumótum. 

„Ég veit í rauninni ekki meira en ég verð á Íslandi út júlí og svo kemur restin í ljós. Það eiga að vera mót í Bretlandi í ágúst, en það lítur ekki sérlega vel út miðað við hvernig Bretland er núna. Maður reynir að vera bjartsýn og þolinmóð og maður bíður eftir fréttum. Það eru stærri hlutir í gangi en vinnan mín,“ sagði Valdís. 

mbl.is