Áhugamennirnir að sjá við atvinnumönnunum

Dagbjartur Sigurbrandsson er í forystu.
Dagbjartur Sigurbrandsson er í forystu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að tveimur hringjum loknum á ÍSAM-mót­inu í golfi sem fram fer á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar eru þrír áhugamenn í þremur efstu sætunum í karlaflokki, þrátt fyrir að íslenskir atvinnumenn séu á meðal þátttakenda. 

Dagbjartur Sigurbrandsson, 17 ára, er í forystu á sex höggum undir pari. Hann lék fyrsta hringinn fyrr í dag á 70 höggum og annan hringinn á 68 höggum, en par Hlíðavallarins er 72 högg. Dagbjartur fékk sex fugla á seinni hringnum og tvo skolla. 

Björn Óskar Guðjónsson er annar á fjórum höggum undir pari. Lék hann fyrri hringinn á 71 höggi og seinni hringinn á 69 höggum. Fékk hann fimm fugla og tvo skolla á öðrum hring. Þá er Kristófer Orri Þórðarson í þriðja sæti á tveimur höggum undir pari. Fékk hann fimm fugla og þrjá skolla á öðrum hring, sem hann lék á 70 höggum. 

Á eftir þeim koma þrír atvinnumenn, allir á tveimur höggum undir pari. Axel Bóasson lék fyrri hringinn á 70 höggum og annan hring á 72 höggum. Andri Þór Björnsson gerði slíkt hið sama og Ólafur Björn Loftsson, sem var í forystu eftir fyrri hringinn, lék seinni hringinn á 74 höggum, eftir að hafa farið fyrri hringinn á 68 höggum. 

Þriðji og síðasti hringurinn fer fram á morgun, en heildarstöðuna má sjá með því að smella hér

mbl.is