Meistarinn leiðir með fjórum höggum

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarinn og atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir fékk sex fugla á fyrsta hring sínum í dag á ÍSAM-mótinu sem fram fer á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Guðrún Brá lék á samtals 68 höggum eða fjórum höggum undir pari vallarins. 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir kemur þar á eftir en hún fékk fjóra fugla og fjóra skolla og var því samtals á pari vallarins. Valdís Þóra Jónsdóttir kemur þar á eftir á einu höggi yfir pari en Valdís fékk fjóra fugla í dag og fimm skolla.

Annar hringur mótsins verður leikinn síðar í dag og sá þriðji á morgun. Þetta er í fyrsta sinn síðan 1996 sem þær Guðrún Brá, Ólafía Þórunn og Valdís Þóra leika allar á sama mótinu.

mbl.is